Monday, December 11, 2006

Um fullorðinsfræðslunámskeiðið


Ég fékk ábendingu um það frá ötlum VIMA félaga í gær, 21.okt að þessi dálkur um krakkana okkar væri ekki uppfærður nógu vel og það er hárrétt. Hér geri ég nokkra bragarbót.

Eins og sagt hefur verið frá talaði Nouria Nagi um það við mig sl. haust að hana langaði mig að koma á laggirnar fullorðinsfræðslu fyrir jemenskar konur á ýmsum aldri enda er læsi fullorðinna í Jemen afar slakt, ekki síst á það við um konur.

Babb kom í bátinn þegar hún fór að garfa í þessu vegna þess að fjölskyldur ýmsissa stúlknanna tóku þessu miður vel. Henni hugkvæmdist þá að sameina sauma og lestrarnámskeið og þá gekk allt betur.

Upp úr áramótunum síðustu 2005-2006 fékk ég bréf frá Nouriu Nagi í Jemen með nöfnum 18 stúlkna sem hafa byrjað starfs- og lestrarnám í miðstöð YERO í Sanaa í Jemen.
Allar þessara kvenna njóta stuðnings frá okkur og við getum verið stolt af því.

Þær eru á aldrinum 16-39 ára. Sama upphæðin þ.e. 200 dollarar er greidd fyrir hverja og eina.

Stúlkurnar eru
1. Afnan Khaled er 16 ára, hún er föðurlaus og fjölskyldan illa stödd fjárhagslega. Stuðningsmaður Eymar Pledel Jónsson

2. Phonon Khaled er 18 ára og systir Afnan. Þær stunda einkum nám í saumaskap og hannyrðum til að geta stutt fjölskylduna síðar meir. Stuðningsmaður hennar Dögg Jónsdóttir

3. Amna Taha er 18 ára. Gift og 3ja barna móðir. Maðurinn er atvinnulaus og hana langar að læra að sauma og lesa svo hún geti bjargað sér og fjölskyldunni. Stuðningsmaður Erla Magnúsdóttir

4. Khazna Bo Bellah er 22ja ára, fráskilin og þriggja barna móðir. Hún er ólæs. Elsti drengurinn hennar Ali er studdur til skólanáms af YERO Stuðningsmaður Ragnhildur Guðmundsdóttir

5.Najeeba Safe er 26 ára og á 6 börn. Hún er ólæs og óskrifandi. Eiginmaðurinn hefur vinnu örðu hverju. Hún sækir bæði lestrar- og saumatíma. Stuðningsmaður hennar Bjarnheiður Guðmundsdóttir

6. Halima Abdo er 36 ára, fráskilin með sex börn. Hún býr hjá bróður sínum og konu hans, en börnin eru hjá föður sínum. Hana langar að læra svo hún geti tekið börnin til sín. Stuðningsmaður Herdís Kristjánsdóttir

7. Seena Hussan Sayeed er 30 og á fimm börn. Hún var í skóla til tólf ára aldurs og vill taka upp þráðinn. Synir hennar njóta allir stuðnings YERO. Stuðningsmaður Litla fjölskyldan: Ragnheiður Gyða, Guðrún V. Þórarinsd og Oddrún Vala

8. Raefa Omer er 39 ára og kann að lesa og skrifa en býr við bágar aðstæður. Tvær dætur hennar , sem eru báðar fatlaðar, njóta stuðnings okkar, þe. Evu Júlíusdóttur og Ólafar S. Magnúsdóttur. Stuðningsmaður er Guðrún Sverrisdóttir

9. Sarkas Ali Aldawee er 26 ára er sæmilega læs og skrifandi en býr við sára fátækt og veikindi eru á heimilinu. Stuðningsmaður Guðrún Guðjónsdóttir

10. Sayda Mohammed, 38 ára. Hún er móðir þriggja stúlkna sem við styðjum, þe. Litla fjölskyldan, Jóna og Jón Helgi, Dominik Jónsson og Inga Hersteinsdóttir. Saydu langar að læra að lesa og skrifa. Hún vinnur fulla vinnu sem vinnukona auk þess að annast heimili sitt. Stuðningsmaður Elísabet Jökulsdóttir

11. Kokup Al Akeal, tvítug og ógift, hún er ólæs og óskrifandi en vill læra til að geta hjálpað sjúkum foreldrum. Stuðningsmaður er Guðrún Valgerður Bóasdóttir

12. Moonya Ali er tvítug og ógift. Hún kann að lesa og skrifa en þarf að læra saumaskap svo hún geti hjálpað bláfátækri fjölskyldu. Stuðningsmenn Inga Jónsdóttir og Þorgils Baldursson

13. Sasbal Al Akeal, 23ja ára. Er sæmilega læs og skrifandi en vill læra svo hún geti staðið á eigin fótum. Stuðningsmaður er Fríða Björnsdóttir

14. Hana Mohammed Ali er gift og á þrjú börn. Eiginmaður hennar er sjúklingur. Hún þekkir stafina og er kappsöm og vill styðja fjölskyldu sína með því að læra. Stuðningsmaður Þóra Jónasdóttir.

15. Najla Alobedydi er 25 ára, ógift og hefur lært að lesa en vill bæta við sig hagnýtu námi svo hún geti bjargað sér. Stuðningsmaður er Sigurbjörg Þorsteinsdóttir

16. Afafe Al Obeydi- stuðningsmaður er Birna Sveinsdóttir

17. Ebtseam Al Makalee- Elin Ösp Gisladóttir

18. Fairouz Al Hamyari er 22 ára og fráskilin þriggja barna maður. Hún er einnig á námskeiðinu með litlu telpunum þ´ví hún hætti í skóla þegar hún gifti sig 15 ára. Hún reynir nú að afla sér menntunar svo hún geti tekið börnin aftur til sín en þau eru hjá fyrv. eiginmanni. Fairoyz hefur sýnt sérstaka hæfileika í handmennt. Stuðningsmaður er Magnea Jóhannsdóttir.

Eins og fram kemur hér að ofan hafa allar þessar dugnaðarstúlkur nú fengið sína styrktarmenn.

Það skal svo tekið fram að öllum þessum stúlkum hefur gengið vel. Styrktarmenn þeirra fengu allir upplýsingar um þær sl. vor og hvernig þeim gengi. Ekki fylgdu þeim myndir af stúlkunum því þær eru allar komnar á þann aldur að þær eru mjög tregar til að senda af sér myndir og það verðum við náttúrlega að virða.

Þegar ég var með hóp í Jemen sl. vor fórum við í heimsókn í miðstöðina og hreifst fólk, held ég að sé óhætt að segja, af því starfi sem þar er unnið.

Einn þátttakenda í ferðinni, Ólafur S. Guðmundsson sem gerði mjög skemmtilega og athyglisverða mynd um hana ákvað að gera diska og gefa allan ágóðann af honum í Fatimusjóð. Það var drengilegt af honum.
Nouria sagði að ætlunin væri að þær stúlknanna sem stæðu sig best og byggju við hvað erfiðastar aðstæður mundu fá eigin saumavél að námskeiðinu loknu, en því lýkur nú í desember 2006.

Var þá samþykkt á stjórnarfundi VIMA að láta ágóðann af sölu disks Ólafs renna til þessa. Hver saumavél kostar um 250 dollara, að sögn Nouriu, og seljist allir diskarnir ætti það að duga fyrir 5-6 vélum. Verði fleiri stúlkur taldar eiga skilda saumavél mun Fatimusjóður leggja út fyrir þeirri upphæð sem munar.

Hvet ykkur eindregið til að fá ykkur disk, kostar 2500 kr. og bara að hafa samband við mig. Þegar hefur safnast fyrir amk. einni vél til viðbótar með frjálsum framlögum.

Á eftir ætla ég svo að færa inn kafla um nýju börnin 20 sem bættust við hjá okkur og nokkrar nýjar því fimm úr fyrri hópnum voru teknar úr skólanum, ýmist vegna þess að þær voru að fara að gifta sig eða fjölskyldan taldi sig ekki geta verið án vinnu þeirra. Þær fengu samt allar nýja styrktarmenn eins og hendi væri veifað.

No comments: